Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrir starfsárin 2009 og 2010 - Fréttir

4.5.2011

Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrir starfsárin 2009 og 2010

Aðalfundur Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis fyrir starfsárin 2009 og 2010 var haldinn miðvikudaginn 13. apríl 2011.

Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam um 510 milljónum króna en tap var á rekstrinum árið 2009 og nam það 373 milljónum króna.

Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir sparisjóðsins í árslok 2,8 milljörðum króna og er bókfært eigið fé í árslok 2010  333 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var í árslok um 16,4%. Í árslok 2009 voru eignir sparisjóðsins 2,9 milljarðar króna og bókfært eigið fé neikvætt um 477,8 milljónir króna. Eiginfjárhlutfall var í árslok 2009 neikvætt um 25,3%

Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis lauk í desember 2010. Samtals nam eftirgjöf skulda um 735 milljónum króna  króna sem færðar voru til tekna á árinu 2010.

Aðalfundur staðfesti ársreikning félagsins. Ákveðið var greiða ekki út arð vegna ársins 2010.

Nokkrar breytingar voru gerðar á samþykktum Sparisjóðs Þórshafnar og nágrennis. Helstu breytingar er að finna í 3., 7., 9., 11., 12., 14., 15., 25. og 41. gr. Breytingarnar varða m.a. hlutverk sjóðsins og stofnfé (fjárhæð þess, möguleika á rafrænni skráningu og framsali).

Bankasýsla ríkisins fer með 75,9% eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og tilnefnir fjóra stjórnarmenn af fimm. Þeir eru skipaðir að tillögu Valnefndar Bankasýslunnar. Af hálfu Bankasýslu ríkisins voru María Lóa Friðjónsdóttir,  Hólmgeir Karlsson, Helgi Ómar Pálsson og Auður Hörn Freysdóttir skipuð í stjórn, varamenn þeirra eru Ragnar Þorgeirsson, Jónína Kristjánsdóttir, Sigurður Skúli Bergsson, og Kristinn Hjálmarsson. Fimmti stjórnarmaðurinn er Kristín Kristjánsdóttir og er Þorbjörg Þorfinnsdóttir varamaður hennar.

María Lóa Friðjónsdóttir útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Viðskiptaháskóalanum á Bifröst árið 2006 og lauk meistaraprófi í stjórnun í alþjóðlegu fyrirtækjaumhverfi frá Háskólanum á Akureyri  árið 2010.
María Lóa starfaði sem fyrirtækjaráðgjafi á sölusviði hjá Intrum á Íslandi á árunum 2007-2010. Á árunum 2005-2007 var hún skrifstofustjóri og staðgengill sparisjóðsstjóra hjá Sparisjóði Skagafjarðar. María Lóa var framkvæmdarstjóri í átaksverkefni  hjá Stefnu ehf. á Akureyri árið 2005 og framkvæmdastjóri upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Norðurlandi vestri sumarið 2004. Á árunum 2001-2003 starfaði hún á rekstrarsviði Byggðastofnunar og var skrifstofustjóri í afleysingum hjá Vegagerðinni á Norðurlandi vestra árið 2000-2001. María Lóa var framkvæmdarstjóri og eigandi sólbaðsstofunnar Lindarinnar heilsustúdíós og Gallerís Lindar frá 1997-2001. Hún var markaðs-, þjónustustjóri og staðgengill útibússtjóra í Landsbankanum árin 1982-1998.

Hólmgeir Karlsson lauk verkfræðiprófi í mjólkuriðn frá Landbúnaðarháskóla Noregs árið 1983 og námi í rekstri og stjórnun frá Háskólanum í Liverpool árið 2008. Hólmgeir hefur verið framkvæmdastjóri Bústólpa ehf á Akureyri frá árinu 2007. Hann var framkvæmdarstjóri þróunar- og markaðssviðs hjá Norðurmjólk á Akureyri á árunum 2000-2007. Hólmgeir var mjólkursamlagsstjóri hjá Mjólkursamlagi KEA á árunum 1997-2000 og framleiðslustjóri á sama stað á árunum 1988-1997. Hann starfaði hjá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði á árunum 1986-1988.

Helgi Ómar Pálsson lauk prófi í viðskiptafræði af endurskoðunarsviði frá Háskóla Íslands árið 1991 og prófi í rekstrarhagfræði frá Handelshöjskolen Köbenhavn árið 1993.
Helgi Ómar hefur starfað sem sölu- og þjónustustjóri hjá Sjóvá hf. frá árinu 2008. Hann var svæðisstjóri Avant hf. á Norðurlandi á árunum 2006-2008 og sölu- og þjónustustjóri hjá Intrum á Íslandi 2005-2006. Helgi Ómar var svæðisstjóri Norðurlands hjá Eimskipafélagi Íslands á árunum 2003-2004 og framkvæmdastjóri skipaafgreiðslu Húsavíkur 1995-2003. Hann var framkvæmdarstjóri íþróttafélagsins Þórs á árunum 1993-1995.

Auður Hörn Freysdóttir útskrifaðist úr lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 1996. Hún er einnig með próf í löggiltri verðbréfamiðlun.
Auður Hörn hefur stundað lögmennsku á eigin vegum síðan 1998. Hún var dómarafulltrúi hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra 1997-1998 og forstöðumaður Skrifstofu atvinnulífsins á Akureyri 1994-1996. 

Fundurinn ákvað að laun stjórnarmanna yrðu óbreytt frá fyrra ári, kr. 40.000 á mánuði fyrir stjórnarmenn og 80.000 á mánuði fyrir stjórnarformann.

Samþykkt var að framlengja til næsta aðalfundar heimild stjórnar til hækkunar á stofnfé sem var samþykkt á stofnfjáreigendafundi 17. desember 2009. Þá var samþykkt heimild fyrir kr. 850.000.000 að nafnverði og af því hafa verið nýttar kr. 255.055.000.

Endurskoðunarfélag var kosið Ríkisendurskoðun.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins,  
sími: 550-1700/856 5540