Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Norðfjarðar - Fréttir

20.2.2012

Stofnfjáreigendafundur Sparisjóðs Norðfjarðar

Fundur stofnfjáreigenda Sparisjóðs Norðfjarðar var haldinn fimmtudaginn 19. janúar 2012.

Jón Einar Marteinsson, stjórnarformaður sparisjóðsins, kynnti niðurstöður úr söluferli sparisjóðsins, ásamt þeim hagræðingaraðgerðum, sem ákveðnar hafa verið.

Fram kom á fundinum, að söluferlið hefði verið unnið í samstarfi við stærstu eigendur sjóðsins, en þeir eru íslenska ríkið, Fjarðabyggð og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað (SÚN). Bankasýsla ríkisins fer með 49,5% stofnfjárhlut íslenska ríkisins í sparisjóðnum. Ofangreindir aðilar fara með um 80% af stofnfé sjóðsins. Einnig var haft samráð við aðra eigendur.

Samið var við  HF Verðbréf um að hafa umsjón með og veita stjórn ráðgjöf í söluferlinu. Ferlið hófst með auglýsingu í dagblöðum í byrjun september og skiluðu bjóðendur inn tilboðum í byrjun nóvember. Eftir viðræður við bjóðendur var það mat stjórnar og stærstu eigenda, að tilboðin væru of lág, og var því ákveðið að hafna þeim.

Þar sem ekki varð af sölu sparisjóðsins var nauðsynlegt að ráðast í hagræðingaraðgerðir til þess að tryggja reksturinn til næstu ára. Stærsta aðgerðin felst í uppsögn fimm starfsmanna og lokun afgreiðslu sparisjóðsins á Reyðarfirði frá og með 1. apríl 2012. Einnig hefur náðst samkomulag við stjórnendur um lækkun á launum, afnám bifreiðahlunninda sparisjóðsstjóra og sölu sumarbústaðar sparisjóðsins.