Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Samanburður á afkomu og þróun efnahags fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á árinu 2020 - Fréttir

29.10.2020

Samanburður á afkomu og þróun efnahags fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins á árinu 2020

 

Eftir að áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar fór að gæta á Íslandi hefur Bankasýsla ríkisins lagt sérstaka áherslu á að fylgjast með afkomu og þróun á efnahag fjármálafyrirtækja, sem eru í eigu ríkissjóðs, m.a. í ljósi þeirrar áhættu, sem gæti fylgt eignarhaldinu.

Í þessu sambandi hefur Bankasýsla ríkisins haft tvennt að leiðarljósi. Annars vegar að bera saman afkomu og þróun á efnahag fjármálafyrirtækja í eigu ríkisins við þróun á afkomu og efnahag kerfislega mikilvægra banka á Íslandi á tímabilinu frá 2020-2022, eins og hún birtist í heild sinni í sviðsmyndum Seðlabanka Íslands í ritinu Fjármálastöðugleiki 2020/1 þann 1. júlí sl. Hins vegar að bera saman afkomu og þróun á efnahag fjármálafyrirtækjanna við afkomu og efnahag banka í öðrum löndum Evrópu, eins og hún birtist í áhættuvísum (e. risk dashboard) Evrópsku bankaeftirlitsstofunarinnar (e. European Banking Authority, EBA), en áhættuvísir EBA fyrra árshelmings 2020 birtist 5. október sl.

Í tveimur minnisblöðum til fjármála- og efnahagsráðherra hefur Bankasýsla ríkisins birt niðurstöður slíkra greininga. Í minnisblaði dags. 31. ágúst sl. birti stofnunin sjálfstætt mat á mögulegri þróun og afkomu fjármálafyrirtækjanna á grunni þriggja sviðsmynda Seðlabankans fyrir kerfislega mikilvæga banka á Íslandi í heild sinni, eins og að framan greinir. Í minnisblaði dags. 29. október birti stofnunin svo samanburðargreiningu á þeim áhættuþáttum, sem EBA birtir í áðurnefndum ársfjórðungslegum áhættuvísi sínum, miðað við afkomu banka í Evrópulöndum á fyrri árshelmingi 2020 og efnahag þeirra 30. júní sl.

Greiningar Bankasýslu ríkisins, sem birtar voru í fyrrgreindum minnisblöðum, eru einungis framkvæmdar á grundvelli opinberra upplýsinga. Mun stofnunin uppfæra þær með reglulegum hætti í framtíðinni, annars vegar í kjölfar birtingar ársfjórðungslegs áhættuvísis EBA og hins vegar við birtingu nýrra sviðsmynda Seðlabankans um afkomu og þróun á efnahag kerfislega mikilvægra banka á íslandi.

Hér er að finna tengill á bæði minnisblöðin:

Minnisblað til ráðherra vegna sviðsmynda 31 ágúst 2020

Minnisblað um samanburð á afkomu banka á Íslandi og í Evrópu 29 október 2020

Frekari upplýsingar gefur Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, í síma 550-1701