Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Yfirlýsing frá stjórn og starfsfólki Bankasýslu ríkisins - Fréttir

19.4.2022

Yfirlýsing frá stjórn og starfsfólki Bankasýslu ríkisins

 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Íslands var Bankasýslu ríkisins fengið það hlutverk að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir árslok 2023 væru markaðsaðstæður hagfelldar.

Árið 2021 var 35% eignarhlutur í Íslandsbanka seldur í frumútboði sem skilaði ríkissjóði rúmum 55 milljörðum króna. Í framhaldi var tekin ákvörðun um að selja næsta hlut með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi.

Í samræmi við lög var óskað eftir umsögn og athugasemdum frá bæði fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Þá var einnig óskað eftir formlegri umsögn Seðlabanka Íslands. Allt ferlið var opinbert og nákvæm tímasetning þess er skráð á heimasíðu Bankasýslu ríkisins og í fréttatilkynningum til kauphallar.

Þann 22. mars síðastliðinn var 22,5% hlutur ríkisins í Íslandsbanka seldur með tilboðsfyrirkomulagi og fengust rúmir 52,6 milljarðar króna fyrir hlutinn. Sala með þessu fyrirkomulagi felur í sér lokað útboð á hlutum í þegar skráðu félagi til hæfra fjárfesta og er algengasta söluaðferð eftir frumútboð á hlutabréfum í evrópskum fyrirtækjum.

Í öllum gögnum frá Bankasýslunni kom fram að helsti gallinn við tilboðsfyrirkomulag væri að ekki væri gert ráð fyrir þátttöku almennra fjárfesta í ferlinu. Ríkissjóður á enn 42,5% hlut í Íslandsbanka og er hluturinn metinn á um 100 milljarða. Þann hlut á eftir að selja og var m.a. gert ráð fyrir þátttöku almennings í næstu skrefum.

Útboð á 22,5% hlut í fullu samræmi við yfirlýst áform
Framkvæmd við söluna sem fram fór í mars var á grundvelli forsenda sem fram komu í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2022 og í fullu samræmi við ákvörðun fjármálaráðherra, kynningar Bankasýslunnar fyrir ráðherranefnd ríkistjórnarinnar um efnahagsmál, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis og Seðlabanka Íslands, eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki, ákvæði laga nr. 88/2009 og laga nr. 155/2012 og viðteknum venjum á hlutabréfamörkuðum.

Framkvæmd útboðsins fór  eins fram og því hafði verið lýst af hálfu stofnunnnar frá upphafi til loka, í nánu samstarfi við stjórnvöld sem voru ítarlega upplýst um öll skref sem stigin voru.

Stjórn og starfsfólk Bankasýslu ríkisins hafa unnið að framkvæmd útboðsins í samræmi við ofangreindar forsendur með fagmennsku og heiðarleika í fyrirrúmi. Leit stofnunin svo á að framkvæmd útboðsins væri þannig að fullu í samræmi við vilja stjórnvalda enda hafa engin fyrirmæli eða viðbrögð ríkistjórnar borið merki um annað, hvorki í aðdraganda þess né eftir að því var lokið. Þannig taldi stjórn og starfsfólk Bankasýslunnar sig vinna í fullu umboði fjármálaráðherra og ríkisstjórnar.

Engin formleg gagnrýni hefur borist Bankasýslunni frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar á framkvæmd útboðsins þó komið hafi fram að ráðherrar hafi verið ósáttir við að Bankasýsla ríkisins taldi ekki heimilt að birta lista yfir kaupendur í útboðinu. Það mat Bankasýslunnar byggði á álitum fleiri en eins utanaðkomandi lögfræðiráðgjafa stofnunarinnar.

Um yfirlýsingu formanna
Stjórn Bankasýslunnar telur þá umræðu sem skapast hefur í kjölfar útboðsins að miklu leyti varða þau pólitísku álitaefni sem sannarlega koma upp vegna sölunnar á Íslandsbanka. Ljóst er að það samræmist ekki hlutverki Bankasýslunnar að taka þátt í slíkri umræðu eða taka afstöðu til hennar. 

Stjórn Bankasýslunnar fagnar yfirstandandi skoðun á framkvæmd útboðsins af hálfu þar til bærra eftirlitsaðila og ekki mun standa á Bankasýslunni við aðstoð og veitingu upplýsinga er það varðar.

Frá því að Bankasýslan tók til starfa í ársbyrjun 2010 hefur hún farið með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum samkvæmt lögum. Verðmæti þeirra eigna sem Bankasýslunni var falið að hafa umsjón með hefur margfaldast á starfstíma stofnunarinnar svo nemur hundruðum milljarða króna. Alls hefur stofnunin innheimt 377 milljarða króna í formi arðgreiðslna og söluandvirði eigna til ríkissjóðs og eftirstæðar eignir í umsjón Bankasýslunnar eru væntanlega yfir 400 milljarðar kr. Af þessum árangri er starfsfólk og stjórn Bankasýslunnar stolt.   

Þrátt fyrir að lengi hafi legið fyrir að til stæði að leggja niður Bankasýslu ríksins kom orðalag yfirlýsingar formanna stjórnarflokkanna, um annmarka við framkvæmd útboðsins, stjórn og starfsmönnum Bankasýslunnar á óvart.

Í ljósi fréttaflutnings fjölmiðla í dag telur stjórn og starfsmenn Bankasýslunnar nauðsynlegt að koma ofangreindum sjónarmiðum og upplýsingum á framfæri.