Tilnefningar í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar - Fréttir
6.8.2010
Tilnefningar í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar
Bankasýsla ríkisins óskar eftir tilnefningum í stjórnir sparisjóða sem fyrirséð er að verði á forræði Bankasýslunnar. Nú er sérstaklega óskað eftir tilnefningum í stjórn Sparisjóðs Norðfjarðar.
Þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, undirbýr tilnefningar aðila fyrir hönd ríkisins í stjórnir fyrirtækja sem eru á forræði stofnunarinnar.
„Bankasýsla ríkisins leggur áherslu á vandað ferli við val á þeim einstaklingum sem valdir eru til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins. Við óskuðum á sínum tíma eftir tilnefningum frá almenningi vegna skipunar í stjórnir Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka og voru viðbrögðin vonum framar. Bankasýslunni barst fjöldi ferilskráa og gat því valið úr stórum hópi hæfileikafólks þegar tilnefnt var í stjórnir bankanna.
Sparisjóðirnir gegna veigamiklu hlutverki á þeim svæðum sem starfsemi þeirra nær til og miklu skiptir að vel takist til við val á stjórnarmönnum í þeim sparisjóðum sem verða á forræði Bankasýslunnar. Ég vil sérstaklega taka fram að við leggjum mikið upp úr jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið m.a. ráða ferðinni þegar stjórnarmenn sparisjóða verða valdir," segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.
Valnefndin styðst við ákveðnar starfsreglur, sem hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu Bankasýslu ríkisins, www.bankasysla.is. Fjallað er um hæfnisskilyrði stjórnarmanna í þriðju grein starfsreglnanna.
Nefndin tekur m.a. mið af yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja. Lögð er áhersla á að huga að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig og tilnefna stjórnarmenn sem hafa fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og hæfni.
Aðili sem valnefndin tilnefnir sem stjórnarmann í fjármálafyrirtæki skal jafnframt uppfylla hæfisskilyrði 52. greinar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Áhugasamir um setu í stjórn ofangreinds sparisjóðs, sem telja sig uppfylla skilyrði 3. greinar starfsreglna valnefndar og hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki, eru hvattir til að senda ferilskrár sínar til valnefndar Bankasýslu ríkisins á netfangið valnefnd@bankasysla.is Einnig er hægt að fylla út eyðublað á heimasíðu Bankasýslunnar www.bankasysla.is.
Nánari upplýsingar veitir: Davíð Steinn Davíðsson, starfsmaður Bankasýslu ríkisins, sími: 550-1700