Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Tilnefningar í stjórnir sparisjóða - Fréttir

7.1.2011

Tilnefningar í stjórnir sparisjóða

Bankasýslu ríkisins hefur verið falið að fara með eignarhlut ríkissjóðs í Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Vestmannaeyja og Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis. Auk þess mun Bankasýslan fara með eignarhlut ríkissjóðs í Spkef sparisjóði þegar fjárhagslegri endurskipulagningu hans verður lokið. Af hálfu Bankasýslu ríkisins er óskað eftir tilnefningum í stjórnir ofangreindra sjóða.

Þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, undirbýr tilnefningar aðila fyrir hönd ríkisins í stjórnir fyrirtækja sem eru á forræði stofnunarinnar.

„Bankasýsla ríkisins leggur áherslu á vandað ferli við val á þeim einstaklingum sem valdir eru til setu í stjórnum fjármálafyrirtækja fyrir hönd ríkisins.

Sparisjóðirnir gegna veigamiklu hlutverki á þeim svæðum sem starfsemi þeirra nær til og miklu skiptir að vel takist til við val á stjórnarmönnum í þeim sparisjóðum sem eru á forræði Bankasýslunnar. Ég vil sérstaklega taka fram að við leggjum áherslu á jafnrétti kynjanna við val á stjórnarmönnum og viljum sjá þau sjónarmið m.a. ráða ferðinni þegar stjórnarmenn sparisjóða verða valdir,“ segir Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Valnefndin styðst við ákveðnar starfsreglur, sem hægt er að kynna sér nánar á heimasíðu Bankasýslu ríkisins, www.bankasysla.is. Fjallað er um hæfnisskilyrði stjórnarmanna í þriðju grein starfsreglnanna.

Nefndin tekur m.a. mið af yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja. Lögð er áhersla á að huga að þörfum hvers fyrirtækis fyrir sig og tilnefna stjórnarmenn sem hafa fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar menntun og hæfni.

Aðili sem valnefndin tilnefnir sem stjórnarmann í fjármálafyrirtæki skal jafnframt uppfylla hæfisskilyrði 52. greinar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Áhugasamir um setu í stjórn ofangreindra sparisjóða, sem telja sig uppfylla skilyrði 3. greinar starfsreglna valnefndar og hæfisskilyrði laga um fjármálafyrirtæki, eru hvattir til að senda ferilskrár sínar til valnefndar Bankasýslu ríkisins á netfangið valnefnd@bankasysla.is. Einnig er hægt að fylla út eyðublað á heimasíðu Bankasýslunnar www.bankasysla.is. Þeim tilmælum er beint til þeirra sem gefa kost á sér að taka fram á eyðublaðinu eða í tölvupósti hvort framboð þeirra einskorðast við ákveðinn sparisjóð.

Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími: 550-1700/856 5540