Aðalfundur Sparisjóðs Norðfjarðar vegna starfsársins 2010 - Fréttir
4.5.2011
Aðalfundur Sparisjóðs Norðfjarðar vegna starfsársins 2010
Aðalfundur Sparisjóðs Norðfjarðar vegna starfsársins 2010 var haldinn fimmtudaginn 7. apríl 2011.
Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam um 87 milljónum króna. Samkvæmt efnahagsreikningi nema eignir sparisjóðsins 5,2 milljörðum króna og er bókfært eigið fé í árslok 2010 um 591 milljón krónur. Eiginfjárhlutfall var í árslok 2010 20,3%.
Fjárhagslegri endurskipulagningu Sparisjóðs Norðfjarðar lauk í júní 2010. Samtals nam eftirgjöf skulda um 269 milljónum krónum sem færðar voru til tekna.
Aðalfundur staðfesti ársreikning félagsins. Ákveðið var að greiða ekki út arð árið 2011 vegna starfsemi ársins 2010.
Bankasýsla ríkisins fer með 49,5% eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Norðfjarðar og tilnefnir tvo stjórnarmenn. Þeir eru skipaðir að tillögu Valnefndar Bankasýslunnar. Af hálfu Bankasýslu ríkisins var Hildur Dungal skipuð í stjórn en hún tekur sæti Guðrúnar Bjargar Birgisdóttur. Hákon Björnsson situr áfram í stjórn sem fulltrúi Bankasýslu ríkisins. Varamenn þeirra eru Árný Björg Bergsdóttir og Guðný Bjarkadóttir. Aðrir stjórnarmenn eru Guðmundur J. Skúlason, Jón Einar Marteinsson og Sigurbjörg Hjaltadóttir. Aðrir varamenn eru Magnús Hilmar Helgason, Freysteinn Bjarnason og Sigurborg Hákonardóttir.
Hildur Dungal útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Hildur tók sæti í aðalstjórn Nýherja í febrúar 2011. Hún hóf störf hjá Útlendingastofnun árið 2003 og tók við starfi forstjóra árið 2005. Því starfi gegndi hún fram til ársins 2008. Áður starfaði Hildur sem deildarstjóri lögfræði- og upplýsingadeildar tollheimtusviðs hjá Tollstjóranum í Reykjavík.
Fundurinn ákvað að laun stjórnarmanna yrðu óbreytt frá fyrra ári.
Endurskoðandi var kosin Helgi F. Arnarson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG Endurskoðun hf.
Nánari upplýsingar veitir: Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins,
sími: 550-1700/856 5540