Beint á leiðarkerfi vefsins
Fara á forsíðu

Skýrsla Bankasýslu ríkisins 2012 - Fréttir

13.6.2012

Skýrsla Bankasýslu ríkisins 2012

Bankasýslu ríkisins ber skv. 8. gr. laga nr. 88/2009 að skila árlegri skýrslu um starfsemi sína til fjármálaráðherra. Í skýrslunni er greint frá starfi stofnunarinnar og fjallað um þau verkefni sem framundan eru í bankakerfinu.

Í skýrslunni er fjallað um lögbundið hlutverk og verkefni stofnunarinnar, framkvæmd eigendastefnu ríkisins og atburði liðins starfsárs.  Einnig er umfjöllun um afkomu einstakra viðskiptabanka og sparisjóða, sem Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti í.  Að auki er fjallað um söluferli Sparisjóðs Svarfdæla og Sparisjóðs Norðfjarðar.

Í sérstökum viðauka skýrslunnar er ítarleg greining á rekstrar- og efnahagsreikningi bankanna og vaxtatekjum.

Þá er fjallað um framtíðaráskoranir í bankakerfinu. Annars vegar sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum en á næstunni mun endursöluhlutverk Bankasýslunnar verða fyrirferðarmeira í starfsemi stofnunarinnar. Rakin er sala á hlutum íslenska ríkisins í fjármálafyrirtækjum á árunum 1997-2003.  Sömuleiðis er fjallað um sölu á hlut norska og sænska ríkisins í fjármálafyrirtækjum á svipuðum tíma en mikilvægt er að líta til reynslu annarra landa, sem tekist hafa á við sambærilegar áskoranir.

Loks er fjallað um framtíðarfjármögnun bankakerfisins á alþjóða vettvangi en endurreisn bankakerfisins verður ekki að fullu lokið fyrr en viðskiptabankarnir hafa fengið eðlilegan aðgang að alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.

Nánari upplýsingar veitir Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími 550-1700