Bankasýsla ríkisins leitar að einstaklingum til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækjum - Fréttir
7.2.2013
Bankasýsla ríkisins leitar að einstaklingum til stjórnarsetu í fjármálafyrirtækjum
Bankasýsla ríkisins leitar að aðilum, sem tilbúnir eru að bjóða sig fram í stjórnir fjármálafyrirtækja, sem stofnunin fer með eignarhluti í. Bankasýsla ríkisins er sérstök ríkisstofnun, sem stofnuð var með lögum nr. 88/2009, og fer með eignarhluti ríkisins í þremur viðskiptabönkum (Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og Landsbankanum hf.) og fimm sparisjóðum (Sparisjóði Bolungarvíkur, Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Þórshafnar og nágrennis og Sparisjóði Vestmannaeyja).
Sérstök þriggja manna valnefnd, sem skipuð er af stjórn Bankasýslu ríkisins, tilnefnir aðila fyrir hönd ríkisins sem rétt hafa til setu fyrir hönd þess í bankaráðum eða stjórnum fyrirtækja á forræði stofnunarinnar. Stjórn Bankasýslu ríkisins óskar formlega eftir tilnefningum valnefndar um stjórnarmenn fyrir stjórnarkjör í hlutaðeigandi bankaráðum eða stjórnum.
Valnefndin styðst við ákveðnar starfsreglur, sem unnt er að kynna sér nánar á heimasíðu Bankasýslu ríkisins, www.bankasysla.is. Fjallað er um hæfisskilyrði stjórnarmanna í þriðju grein starfsreglnanna. Nefndin tekur m.a. mið af yfirsýn, þekkingu og reynslu viðkomandi í tengslum við fyrirtækjarekstur og starfshætti fjármálafyrirtækja. Aðili, sem valnefndin tilnefnir sem stjórnarmann í fjármálafyrirtæki, skal jafnframt uppfylla hæfisskilyrði 52. greinar laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Aðilar, sem eru áhugasamir um setu í stjórn fjármálafyrirtækis og telja sig uppfylla ofangreind hæfisskilyrði, eru hvattir til að senda ferilskrár sínar til valnefndar Bankasýslu ríkisins á netfangið valnefnd@bankasysla.is. Einnig er unnt að fylla út eyðublað á heimasíðu Bankasýslunnar.
Nánari upplýsingar veitir: Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, sími 550-1700.