Aðalfundur Landsbankans hf. - Fréttir
6.5.2013
Aðalfundur Landsbankans hf.
Aðalfundur Landsbankans hf. fyrir starfsárið 2012 var haldinn þann 17. apríl 2013.
Á aðalfundinum kom fram að hagnaður síðasta árs nam 25,5 milljörðum kr. Samþykkt var að greiða hluthöfum arð sem nemur 0,42 krónum á hlut fyrir árið 2012, sem samsvar um 39% af hagnaði. Miða skal við hluthafaskrá 30. september nk. og verður útborgunardagur 1. október nk. Ástæða tímasetningar fyrirhugaðrar arðgreiðslu er sú að að LBI hf., sem kröfuhafi, hefur lagt þann skilning í samning milli hans og Landsbankans að ef til arðgreiðslu komi beri bankanum að fyrirframgreiða sambærilega fjárhæð inn á lánin við LBI. Þessum skilningi hefur Landsbankinn hafnað í ljósi þess að bankinn greiddi á miðju síðasta ári rúma 70 milljarða króna inn á skuldina og mun bankinn leitast við að leysa úr álitamálum fyrir útgreiðsludag arðsins.
Breytingar voru gerðar á samþykktum á þann hátt að bankaráðsmönnum var fjölgað úr fimm í sjö, og varamönnum úr því að vera jafnmargir aðalmönnum niður í tvo.
Á fundinum voru eftirfarandi aðilar kosnir í stjórn: Tryggvi Pálsson, stjórnarformaður, Danielle Pamela Neben, Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, Helga Björk Eiríksdóttir, Jón Sigurðsson, Kristján Davíðsson og Þórdís Ingadóttir. Varamenn eru Helga Loftsdóttir og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir. Bankasýsla ríkisins fer með 98% hlut í bankanum fyrir hönd ríkisins, eftir útgáfu skilyrts skuldabréfs í samræmi við svokallaðan FABIA samning og eru allir stjórnarmenn því fulltrúar Bankasýslu ríkisins.
Á fundinum var samþykkt óbreytt starfskjarastefna, Ríkisendurskoðun var kosin sem endurskoðandi félagsins fyrir árið 2013 og samþykkt þóknun bankaráðsmanna var kr. 350.000 á mánuði fyrir almenna bankaráðsmenn, kr. 425.000 fyrir varaformann og kr. 600.000 fyrir formann. Þóknun til hvers bankaráðsmann fyrir störf í undirnefndum bankaráðs skal vera 100.000 kr. á mánuði og þóknun til varamanna kr. 175.000 fyrir hvern setinn fund, en þó aldrei hærri en þóknun aðalmanna innan hvers mánaðar.