Fréttatilkynning: Útgáfa stöðuskýrslu varðandi fyrirhugaða sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í - Fréttir
8.1.2016
Fréttatilkynning: Útgáfa stöðuskýrslu varðandi fyrirhugaða sölumeðferð á eignarhlut ríkisins í
Bankasýsla ríkisins hefur sent frá sér stöðuskýrslu um sölu á eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf.
Fjármála- og efnahagsráðherra er heimilt samkvæmt lögum að selja hlut í fjármálafyrirtæki að uppfylltum
tveimur skilyrðum. Annars vegar að tillaga þar að lútandi komi frá Bankasýslu ríkisins og hins vegar að
heimild sé fyrir sölunni í fjárlögum ársins.
Í fjárlögum ársins 2016 kemur fram að stefnt er að sölu ríkissjóðs á allt að 30% eignarhlut í Landsbankanum
hf. á síðari hluta þess árs. Samkvæmt ákvæðum laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í
fjármálafyrirtækjum er fjármála- og efnahagsráðherra einungis heimilt að selja eignarhlut í Landsbankanum
hf. umfram 70%. Miðað við núverandi eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf. er ráðherra heimilt að selja
allt að 28,2% hlut í bankanum.
Bankasýsla ríkisins áætlar að leggja fram tillögu til ráðherra um sölu í samræmi við lög á fyrsta ársfjórðungi
þessa árs. Líklegast er að aðaltillaga stofnunarinnar verði tillaga um sölu á allt að 28,2% hlut með almennu
útboði og skráningu hluta á skipulegan verðbréfamarkað í kjölfarið.
Stofnunin hefur sett sér fjögur efnahagsleg viðmið um hvenær rétt sé að hefja söluferli á eignarhlutum
ríkisins. Taka þau mið af mikilvægi þess að ríkissjóður endurheimti sem stærstan hluta af fjárframlögum
sínum til viðskiptabankanna og fjármagnskostnað þeim tengdum.
Viðmiðin eru:
- Að íslenskt efnahagslíf hafi styrkst og náð stöðugleika.
- Að virðismat á fjármálafyrirtækjum sé ásættanlegt.
- Að fjárfestar hafi áhuga og bolmagn á fjárfestingu í eignarhlut.
- Að rekstur, afkoma, fjárhagsskipan og stjórnarhættir viðkomandi fjármálafyrirtækis bendi til þess að
fjármálafyrirtækið geti talist álitlegur fjárfestingarkostur.
Það er mat stofnunarinnar að þessi skilyrði séu til staðar og því sé rétt að ráðast í upphaf söluferlis á
eignarhlut ríkisins í Landsbankanum hf.
Í framhaldi af birtingu skýrslunnar mun stofnunin óska eftir yfirlýsingum um áhuga af hálfu aðila sem vilja
starfa með stofnuninni sem ráðgjafar í fyrirhuguðu söluferli.
Ef ákvörðun ráðherra um sölumeðferð liggur fyrir vorið 2016 telur Bankasýsla ríkisins að unnt verði að ljúka
sölu á síðari hluta ársins.
Stöðuskýrslan er aðgengileg á vefsíðu Bankasýslunnar, www.bankasysla.is. Nánari upplýsingar veitir Jón G.
Jónsson forstjóri Bankasýslu ríkisins í síma 550-1700.
Bakgrunnsupplýsingar:
Bankasýsla ríkisins er ríkisstofnun með sjálfstæða stjórn sem starfar samkvæmt lögum nr. 88/2009. Hlutverk
stofnunarinnar er að fara með eignarhluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Jafnframt skal stofnunin annast
sölumeðferð eignarhluta í samræmi við lög nr. 155/2012.