Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf. - Fréttir
18.3.2020
Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf.
Eignarhlutur ríkisins í Íslandsbanka hf.
Með erindi þann 4. mars 2020 lagði Bankasýsla ríkisins fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, um að selja að lágmarki fimmtungshlut í Íslandsbanka í samhliða söluferli. Með tillögunni fylgdi ítarleg skýrsla Eignarhald og sala á Íslandsbanka hf.: Stöðuskýrsla varðandi fyrirhugaða sölumeðferð.
Í ljósi mikið breyttra aðstæðna í tengslum við aðgerðir ríkja heims í baráttu við COVID19 veiruna og verulegrar óvissu í efnahagsmálum ákvað stjórn Bankasýslu ríkisins á fundi þann 12. mars sl. að afturkalla tillöguna.
Við afhendingu tillögunnar þann 4. mars sl. ákvað Bankasýsla ríkisins í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið að bíða með opinbera birtingu tillögunnar til að samhæfa kynningar ásamt því að ljúka við enska þýðingu skýrslunnar.
Aftur á móti í ljósi afturköllunnar og með vísan í markmið laga nr. 88/2009 um að tryggja gagnsæi í allri ákvarðanatöku varðandi þátttöku ríkisins í fjármálastarfsemi og tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings er tillagan, stöðuskýrslan og afturköllun nú birt með opinberum hætti á heimasíðu stofnunarinnar, ásamt enskri þýðingu á samantekt skýrslu stofnunarinnar.
Meðfylgjandi er tenglar á skjölin:
Nánari upplýsingar veitir Jón G. Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins í síma 550-1700.