Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. - Fréttir
1.2.2021
Ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf.
Fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti Bankasýslu ríkisins með bréfi þann 29. janúar sl. þá ákvörðun sína að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka hf. á grundvelli tillögu stofnunarinnar frá 17. desember sl. Í bréfinu koma fram ábendingar um útfærslu á sölumeðferðinni og eru þær í samræmi við umsagnir efnahags- og viðskiptanefndar og fjárlaganefndar Alþingis um að salan verði t.d. að lágmarki 25% af heildarhlutafé í bankanum og 35% að hármarki.
Einnig er í bréfinu bent á að þeir sem óska eftir að kaupa hlutafé að andvirði undir 1 milljón króna geti það þó svo eftirspurn eftir hlutum í bankanum verði meiri en framboðnir hlutir. Þá eru einnig ábendingar um að söluferlið stuðli að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði og leggi grunn að dreifðu eignarhaldi í bankanum. Í bréfinu kemur síðan fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýsla ríkisins muni eiga samstarf um upplýsingagjöf til fyrrgreindra nefnda Alþingis um framgang sölunnar. Í bréfi ráðuneytisins er stofnuninni einnig falið að kanna möguleika á arðgreiðslu af hálfu bankans fyrir útboð á hlutabréfum í honum.
Bankasýsla ríkisins fagnar ákvörðun ráðherra og ábendingum hans. Endurspegla þær markmið stofnunarinnar um að stuðla að dreifðu eignarhaldi, öflugum fjármálamarkaði, virkri og eðlilegri samkeppni, skilvirkni, gagnsæi og virkri upplýsingamiðlun.
Þar sem ákvörðun ráðherra liggur nú fyrir hefst formleg sölumeðferð eignarhlutanna í samræmi við ákvæði laga með ráðningu viðeigandi alþjóðlegra og innlendra ráðgjafa í samvinnu við Ríkiskaup og Íslandsbanka hf. og verða auglýsingar þar að lútandi birtar á evrópska efnahagssvæðinu síðar í vikunni. Í framhaldinu hefst áreiðanleikakönnun, gerð útboðslýsingar, sem verður yfirfarin af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands, og kynningar fyrir væntanlega fjárfesta.
Á þessari stundu er ekki unnt að segja nákvæmlega hvenær sölumeðferð ljúki þar sem ferlið er umfangsmikið og háð ýmsum utanaðkomandi og breytilegum þáttum. Í samræmi við markmið Bankasýslu ríkisins og ábendingar ráðherra mun stofnunin tryggja gagnsæi við sölu hlutanna og virka upplýsingagjöf eftir því sem ferlinu vindur fram.
Nánari upplýsingar gefur Jón G. Jónsson, forstjóri, Bankasýslu ríkisins, +354 550 1701.