Beint į leišarkerfi vefsins
Fara į forsķšu

Upplżsingastefna

Bankasýslan leggur ríka áherslu á gagnsæi í ákvarðanatöku og lítur svo á að liður í því að byggja upp traust á fjármálakerfinu á nýjan leik felist í því að tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. 

Bankasýsla ríkisins mun á heimasíðu sinni veita upplýsingar um stefnu sína og störf.

Bankasýslan mun árlega gefa fjármálaráðherra ítarlega skýrslu um starfsemi sína líkt og kveðið er á um í 8. grein laga um Bankasýslu ríkisins. Fjármálaráðherra mun gera Alþingi grein fyrir starfsemi stofnunarinnar og hvernig til hefur tekist varðandi meðferð eignarhlutanna og hverjar framtíðaráherslur ríkisins eru varðandi þá.

Bankasýslan mun birta útdrátt úr samningum sem hún gerir við stjórnir fjármálafyrirtækja í samræmi við e. lið 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins, 12 mánuðum eftir að þeir eru gerðir. Um er að ræða samninga um almenn og sértæk markmið í rekstri sem gerðir verða að lágmarki við þau fjármálafyrirtæki þar sem Bankasýslan fer með meirihluta hlutafjár/stofnfjár.

Bankasýslan mun að jafnaði birta upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru á hluthafafundum/stofnfjárhafafundum. Undantekning frá því verður gerð ef hluthafafundur fjallar um málefni sem leynt verða að fara af samkeppnisástæðum í samræmi við 5. grein laga um Bankasýslu ríkisins.

 

Bankasýsla ríkisins mun beita sér með markvissum hætti fyrir því að þau fjármálafyrirtæki sem hún kemur að sem eigandi starfi í anda gagnsæis og góðra stjórnarhátta og miðli upplýsingum til almennings og fjölmiðla með skilvirkum hætti í þeim mæli sem lög og reglur heimila.